<body><script type="text/javascript"> function setAttributeOnload(object, attribute, val) { if(window.addEventListener) { window.addEventListener('load', function(){ object[attribute] = val; }, false); } else { window.attachEvent('onload', function(){ object[attribute] = val; }); } } </script> <div id="navbar-iframe-container"></div> <script type="text/javascript" src="https://apis.google.com/js/platform.js"></script> <script type="text/javascript"> gapi.load("gapi.iframes:gapi.iframes.style.bubble", function() { if (gapi.iframes && gapi.iframes.getContext) { gapi.iframes.getContext().openChild({ url: 'https://www.blogger.com/navbar.g?targetBlogID\x3d5388659\x26blogName\x3dFram+og+aftur+blindg%C3%B6tuna\x26publishMode\x3dPUBLISH_MODE_BLOGSPOT\x26navbarType\x3dBLUE\x26layoutType\x3dCLASSIC\x26searchRoot\x3dhttps://thorunnh.blogspot.com/search\x26blogLocale\x3dis_IS\x26v\x3d2\x26homepageUrl\x3dhttps://thorunnh.blogspot.com/\x26vt\x3d-1360765774238871805', where: document.getElementById("navbar-iframe-container"), id: "navbar-iframe" }); } }); </script>
17.11.06
Nýtt bögg

Páll Svansson hefur gert kraftaverk á síðunni minni. Hér eftir verður hann nefndur Jesús. Enda er hann laglegur maður með mikið enni og mógult hár. En nú bið ég heita aðdáendur mína (sem skipta milljónum, eins og oftlega hefur verið sagt á þessari síðu) að uppfæra tengla sína, því hér eftir verður blöggað og böggað á þessari slóð:

http://guikon.com/thorunnh

Góðar stundir.
:::
02:04 ::: Thorunn

14.11.06
Jákvæðni

Ég er svo paranojd yfir blogginu þessa dagana að það er varla eðlilegt. Flestar bloggfærslur tek ég út daginn eftir að ég hef skrifað þær. Skil ekki alveg hvað þetta er.

Það er leiðinlegt að vera neikvæð á blogginu. Þess vegna vil ég segja að á ljóðakvöldinu í Stúdentakjallaranum báru af þau Kristín Svava Tómasdóttir (dóttir Tómasar R.) og eftirmaður minn í starfi, Óttar M. Norðfjörð. Mikið sem þetta unga fólk er hugmyndaríkt og sniðugt!

Palli Svans ætlar að endurhanna síðuna mína. Ég er mjög spennt, vegna þess að Palli er snillingur í umbroti og fleiru. Enda barnabarn Jóhannesar úr Kötlum (sorrí Palli, ég bara varð að segja þetta, til þess að grilla aðeins í þér.)

Talandi um grillerí. Múslimatal mitt fellur ekki í góðan jarðveg. Ég sagði eitthvað um múslima um daginn þegar ég sat með heilmörgum ungskáldum á bar og var næstum drepin. Ég meina það, ég varð bara hrædd. Enda er kannski ekki sniðugt að vera að grilla í fólki þegar heitar umræður um innflytjendamál tröllríða öllu. Þannig að ég er hætt því. Núna. Samt verð ég að reyna að réttlæta sjálfa mig. Ég er því miður þannig gerð að þegar fullt af fólki sem er allt á sömu skoðun er að tjá sig um eitthvað (trú, hvalveiðar, virkjanaframkvæmdir, innflytjendamál. kennaraverkföll o.fl.) þá myndast inní mér eitthvað hræðilega sterkt afl sem vill segja eitthvað sem er í algerri andstöðu við alla hina. Mér finnst eitthvað óbærilega leiðinlegt við það að geta fyrirfram vitað nákvæmlega hvað allir segja.
Þetta er veikleiki. Hann er svo svakalegur að stundum veit ég ekki hvaða skoðanir eru mínar og hverjar hafa myndast einmitt vegna veikleikans. Sorrí. En ég er mannvinur (meiraðsegja líka dýravinur) og ég vil engum illt. Svo það sé á hreinu. Ég elska mannkynið eins og það leggur sig, en nauðgara, morðingja, barnaníðinga og karlrembur elska ég aðeins minna en hin.

TMM er frábært. Ég fíla málfarsfasistagreinar í strimla og grein Gísla Sigurðar er æði. Svo er Dagný Kristjáns með aldeilis dæilega grein um Latabæjarvitleysuna. Dr. Gunni skrifar líka flotta grein um ferð sína og Birgis Baldurssonar á Bítlaslóðir (að ég skuli hrósa Gunna sýnir hvurslags góðmenni ég er, vegna þess að aldrei hrósar hann mér, linkar eða kommentar, þó að ég viti að hann lúsles síðuna mína og við höfum eitt sinn verið vinir. (Þetta tek ég áreiðanlega út á morgun, ef ég þekki mig rétt)).

Ég horfi á Tekinn með Audda Blö og það gláp eykur iðulega trú mína á fólki sem lendir í sprellinu. Sjálf væri ég fljót að taka æðiskast og hella mér yfir dónalegt afgreiðslufólk, menn sem ég stæði að því að spreyja á bílinn minn eða fífl sem ætluðu að draga hann í burtu fyrir litlar eða engar sakir.
Ég varð alveg stúmm í kvöld að horfa á Sigurð Kára díla við dónalega afgreiðslukonu hjá Sævari Karli. Hann var ekkert nema rósemin og leyfði konunni að hella yfir sig svívirðingum þegar ég (væri ég í hans stöðu) hefði fyrir löngu verið búin að segja: "Veistu ekki hver ég er? Ég er alþingismaður og ég skal láta þig finna til tevatnsins. Ég skal klaga þig fyrir öllum. Þú missir vinnuna á morgun vinkona!"
Það er eiginlega mjög gott að ég skuli aldrei komast í námunda við völd af nokkru tagi. Ég væri fljót að misnota aðstöðu mína herfilega.
Leikkonan í fyrsta þættinum var líka ótrúlega þolinmóð, íþróttafréttamaðurinn, Bubbi og fótboltamaðurinn. Ég bara skil þetta ekki.

Mmm. Hvað meira? Tölvan mín er ekki enn komin úr viðgerð. Það er ömurlegt, en annars leikur lánið við mig.
:::
01:06 ::: Thorunn

11.11.06
Bök

Kvefið sem heltók mig í tvo sólarhringa er hviss, bang, horfið. Það er gott vegna þess að mig langar svo ógeðslega til að sjá Christian Bök í kvöld. Hann er nú alveg met.
:::
14:39 ::: Thorunn

10.11.06
Í góðri trú

Til DÞJ og annarra. Sannleikurinn fellur aldrei úr gildi. Þess má geta að umrætt spúttnikk var Hermann Stefánsson, sem fór ekki eftir neinu af því sem honum var kennt og druslaðist út af bloggvelli eftir mánuð. Veit ekki alveg hvers vegna.

http://thorunnh.blogspot.com/2005_06_19_thorunnh_archive.html#111941087738786446
:::
01:56 ::: Thorunn

4.11.06
Óviðeigandi

Síðasta færsla var nú bara sett á síðuna vegna þess að ég er að lesa nýjustu ljóðabók Einars Más, sem ég á að tala um fyrir Víðsjá, en einsog allir vita þá er hann höfundur þessa dásamlega ljóðs úr bókinni Róbinson Krúsó snýr aftur.
Já, á næstunni mun ég standa í því að kynna bókina um MF og líka vera með gagnrýni í Víðsjá. Ég hef borið það undir fjölmörg gáfumenni og siðfræðipostula hvort að það sé nokkuð skrítið að ég sé að gagnrýna bækur þó að ég sé höfundur einnar bókar í flóðinu - en öll mennin segja að það sé allt í lagi vegna þess að ég er nú bara með ævisögu sem gefin er út hjá litlu forlagi, en blanda mér hvorki í skáldsagnaslaginn, né baráttuna á milli JPV og Eddu. Og í Víðsjá er bara talað um skáldsögur og ljóð.
Ég vil vera strangheiðarlegur gagnrýnandi og sór þessvegna af mér þau sem ég þekki einna best, neitaði að tala um Auju, Steinar Braga og Stefán Mána.
Það er ekki á allt kosið, og jú, ég þarf að gagnrýna tvo höfunda sem mér er ansi hlýtt til í netheimum, EÖN og Hermann Stefánsson, en þá þekki ég ekki vel, svona persónulega, og ef mér finnst bækurnar þeirra leiðinlegar, þá verð ég óhrædd við að útlista það í löngu máli í Víðsjánni.

Þetta er kannski óviðeigandi tal. En ég er mjög vond í því að vita hvað er viðeigandi og hvað ekki. Ég bara ekki nógu vel upp alin. Margoft hef ég verið heima hjá aristókratavinkonum mínum í gegnum tíðina og fundið að það sem ég segi og geri er aldeilis óviðeigandi. Líka hef ég setið með frægum og fínum og upplifað það sama. Þá líður mér soldið skringilega í smástund, en hugsa svo: What the heck! Ég bræði þau öll með persónutöfrunum á endanum!

Mjá. Færslan um kvenhatrið leysti úr læðingi heilmikið östrógen á internetinu. Ég er mjög ánægð með það. Líka ber ég nokkra virðingu fyrir þeim fáu körlum sem hættu sér á kommentakerfið. Annars er ég ekkert óvön því að karlar sniðgangi kerfið mitt þó að þeir lesi síðuna mína. Það hæfir þeim sýnilega miklu betur að kommenta hjá öðrum körlum. Enda eru kerlingar sem úttala sig um eitthvað svo miklu ómerkilegri en karlar sem gera það sama.

Well. Á morgun sláumst við Hagamelsbúar um það hvort á að fara á Borat eða Mýrina. Mig langar á Mýrina en feðgana langar á Borat. Jú, mér finnst Borat fyndinn en hann er meira svona vídeó.
:::
23:15 ::: Thorunn

3.11.06
SKÆRULIÐARNIR HAFA UMKRINGT VATNASKÓG!
:::
17:03 ::: Thorunn

2.11.06
Kvenhatrið yfir mér, kvikt af viðbjóði

Ég hef sagt hér á blogginu að ýmislegt hafi reitt mig til reiði. Það er alveg satt. Ég er blind-ösku-þreifandi-brjáluð!

Konur komu ekki vel út úr prófkjörum helgarinnar. Ekki fremur en venjulega. Allar líkur eru til þess að konum fækki á þingi eftir næstu kosningar. Þetta er alveg hætt að koma fólki á óvart, einkum og sér í lagi ef rætt er um prófkjör Sjálfstæðisflokksins.
Þetta hefði svosem ekki komið við kvikuna í mér ef annað hefði ekki komið til. Ég hef verið jafnréttissinni síðan ég fór að standa á löppunum og ég hef löngum sopið brimsaltar fjörur eins og vatn. Nei, ég lýg því. Oft hefur mér svelgst illilega á.
Samt hefði Ásta Möller með margreyndan hetjusvipinn ekkert farið í taugarnar á mér ef allir fréttatímar hina síðari daga hefðu ekki verið uppfullir af ógeðslegum tíðindum sem tengjast bágri stöðu kvenna í samfélagi okkar.
Launamunur kynjanna virðist óbreytanleg jafna. Þetta er ekkert nýtt og það er að heyra uppgjöf hjá þeim sem rannsaka þessi mál. Jah, þetta lagast ekkert. Við bara vitum ekkert hvað á að gera. Það er eiginlega búið að reyna allt.

Það er nefnilega það!

Konur og karlar sitja ekki við sama borð í íþróttum. Þó að íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu hafi staðið sig umtalsvert betur en karlalandsliðið í sömu grein, þá hafa karlarnir margfalt hærri laun og dagpeninga en konurnar. Fíflið Eggert Magnússon kemst upp með að þegja og hin fíflin segja að þetta sé innanbúðarmál. Þess vegna kemst sennilega aldrei neinn botn í málið og staðan verður óbreytt.
Eftir tveggja daga máttleysislega fjölmiðlaumfjöllun er málið horfið í gleymsku daganna.

Annað mál sem furðulega lítið var fjallað um. Forseti eins stærsta lands heimsins segir að það sé til marks um kraft og karlmennsku að nauðga konum og að hann og vinir hans öfundi mann sem sagður er raðnauðgari. Forsetinn hlær og allir valdamiklu karlarnir hlæja með honum. Það er talað um það í einn dag og svo er það gleymt.
Páfinn vitnaði í mann sem sagði fyrir löngu síðan að trúarbrögð múslima væru ofbeldishvetjandi. Heimsbyggðin fór á annan endann vikum saman. Páfinn þurfti að biðjast afsökunar og eitthvað af fólki var drepið vegna meintrar ósvífni hans.
Talibanastjórninni í Afganistan tókst að koma konum aftur í fornaldarstöðu. Eins og þá eru konur grýttar fyrir hórdóm og fleira sem engan veginn eru þó skýrar línur um (til hórdóms telst t.d. ef konu er nauðgað). Nú nýverið bárust fréttir af því að staða kvenna í Afganistan hefur ekkert breyst þó að talibanastjórnin hafi verið felld. Af hverju? Jah, þetta er sennilega eins og með launamun kynjanna. Það bara skilur enginn.
Hægt er að afgreiða ofantalið og kenna um óskiljanlegri heimsku helstu þjóðarleiðtoga. Bush vill banna fóstureyðingar, en er þó fyrsti maðurinn til þess að vilja taka fólk, sem aldrei hefur átt sér neina von, af lífi. Fólk sem hefur alist upp við ólýsanlega fátækt og viðbjóð og kann ekki að gera annað en að ræna, meiða og myrða. Það má ekki eyða fóstrum krakkfíklanna, en ríkið má drepa þau með rafmagni eða eitri þegar þau eru orðin fullþroska glæpamenn.
Annað mál. Tvær síðustu skotárárásirnar í bandarískum skólum. Þar voru bara stelpur drepnar, þó að enginn hafi gert það að sérstöku fréttaefni. Í fyrra tilvikinu hafði morðinginn misnotað stúlkurnar fimm áður en hann skaut þær í höfuðið. Í síðara tilvikinu aðskildi morðinginn stúlkurnar frá drengjunum og skaut eins margar og hann gat. Þá var gert töluvert mál yfir því að þetta var í Amish-skóli, en fáir nenntu að velta sér upp úr því að bara stelpur hefðu verið drepnar. Af hverju?

Nei, ég fór ekki svo langt í hugsun minni. Ég var eiginlega ekkert að hugsa um Bush og talibanana eða klikkhausa í bandarísku skólunum. Ég veit bara hvernig mér líður þegar sonur minn horfir með mér á fréttirnar á kvöldin. Fréttir úr borginni okkar. Maður býður konu far, ekur út fyrir borgarmörkin og nauðgar henni. Hann var látinn laus í dag. Maður misnotaði konu, sem hefur þroska á við 5-7 ára barn. Tveggja ára fangelsi. Maður reynir að lokka átta ára stúlku upp í bíl sinn. Finnst ekki. Maður nauðgar dóttur sinni ítrekað, árum saman, 5 ára fangelsi (hann verður látinn laus eftir tvö ár ef hann hegðar sér skikkanlega).

Þetta er yfirþyrmandi þó að ég viti að það eru ekki nándar nærri allar nauðganir eða nauðganatilraunir sem rata í fréttir. Þær eru þvert á móti lítið brot af þeim sem eiga sér stað hér í þessari borg. En engu að síður hafa á síðustu vikum þrjú tilfelli verið kærð, þar sem vinir og félagar (tveir og upp í átta saman) hafa fengið þá hugmynd á djamminu að nauðga konu. Tveir menn nauðguðu ungri konu við MR. Tveir menn nauðguðu ungri konu við Þjóðleikhúsið. Fjórir til tíu manns reyndu að nauðga konu á klósettinu á Kaffi Viktor. Maður konunnar kom henni til bjargar, en fyrir þá ósvífni lömdu mennirnir úr honum flestar tennur og skildu hann eftir meðvitundarlausan.

Það er margt sem ég skil ekki varðandi kynferðisafbrot. En þetta mun ég sennilega aldrei skilja. Hvernig vekja menn máls á því við félaga sína að þá langi til að nauðga konu og vilji fá þá með í geimið? Ef einhver nauðgari er að lesa þetta (sem er mjög líklegt, þeir eru í það minnsta nógu margir) væri fróðlegt að fá athugasemd í þartilgert kerfi hér á síðunni. Hvernig myndast hugmynd hjá tveimur eða fleiri karlmönnum sem ákveða að nauðga konu?

Jæja hvað eigum við að gera af okkur. Það er búið að loka öllum almennilegum pöbbum.
Jaaa ég veit það ekki. Kannski eitthvað heimapartý?
Nei, been there, done that
Og hvað. Við erum búnir að fara á Hlölla.
Já, úff, ég er pakksaddur.
Ég líka.
Það er djöfulli kalt úti.
Og engir leigubílar.
HVAÐ eigum við eiginlega af okkur að gera?
Heyrðu, nú veit ég! Nauðgum einhverri konu!
Já, það er þjóðráð! Gerum það!
Ég held henni meðan þú nauðgar henni!
Já, ókei!

Nei, þetta er ekki sennileg atburðarás. En hvaða atburðarás er sennileg í þessu samhengi?

Nauðgun. Orðið sjálft er svo viðurstyggilegt að mér finnst nánast óhugsandi að einhver geti nefnt það sem uppástungu að þeirri ógeðslegu athöfn og þá jafnframt brennimerkt sjálfan sig sem nauðgara. Líklegra þykir mér að nauðgunin sé látin heita eitthvað annað. "Hún er að biðja um það, með því að vera hér, í svona stuttu pilsi, á þessum tíma, á þessum stað. Hún er að biðja um það, með því að vera hér, fyrir framan okkur, þegar við erum til alls vísir." Eða hvað? Hjálpið mér, því ég get aldrei skilið þetta.
Einsog það er auðvelt að horfa á klám ef maður hugsar: "Hún hefur bara gaman að þessu!" en fer ekki að skemma fyrir sér hlutina með þeirri staðreynd að yfirgnæfandi hluti kvenna sem lætur ríða sér í klámmyndum hafa verið misnotaðar sem börn, eða þeim nauðgað á fullorðinsárum. Þær hafa tapað allri virðingu fyrir líkama sínum, hafa skilið á milli líkama og sálar, vegna þess að annað er of sársaukafullt.
Og hver kannast ekki við mýtuna um hamingjusömu hóruna og nektardansmeyna sem er að safna sér fyrir skólagjöldum í Harvard?

Það er auðveldara að taka þátt í að niðurlægja konur ef niðurlægingin heitir eitthvað annað.

Ignorance is bliss.

Ég fór að hugsa um þetta allt út frá stelpunum sem voru drepnar í Bandaríkjunum og konunum sem var nauðgað hér heima. Ef það væru Taílendingar sem hefðu ítrekað orðið fyrir árás. Múslimar. Pólverjar. Hommar. Þá færi samfélagið á límingunum. Námsgagnastofnun yrði skipað að búa til bækur. Farið væri í skólana. Auglýsingaherferð Félagsmálaráðuneytisins. Útlendingar eru líka fólk...Samkynhneigð er eðlileg...eða eitthvað.
En ekki þegar konum er nauðgað. Það er eitthvað svo inngróið og algengt. Það er alltaf verið að nauðga konum, berja konur, drepa konur. Það er svo ... venjulegt.

Kvenhatrið yfir mér, kvikt af viðbjóði. Þessa setningu vaknaði ég með í hausnum í morgun. Hún er auðvitað vísun í eitt fallegasta ljóð allra ljóða, en skrumskæld og ógeðsleg. Þessvegna vaknaði ég með kuldahroll í maganum og hugsaði um að ég yrði að skrifa eitthvað um þetta, þó að það hljóti að vera óvinsælt.

Ég verð að segja að það er erfitt að vera femínisti þessa dagana. Samt vorkenni ég þó andfemínistunum meira. Ég hygg að það sé mun erfiðara að ætla að reyna að telja sér trú um að í heiminum ríki fullkomið jafnrétti karla og kvenna, heldur en að sjá hvernig ástandið er og langa til þess að breyta því.

Listin hermir eftir lífinu. Eða var það öfugt? Er það tilviljun að nú nýverið var framkvæmdur gjörningur í Listaháskólanum sem fór fyrir brjóstið á fólki, en þar var hámarkið fólgið í því að þrír eða fjórir karlmenn klipptu af konu höfuð- og skapahár og í lokin meig einn þeirra yfir hana.

Nú geri ég kröfur til lesenda minna og spyr: Hvað þýðir það?
:::
02:13 ::: Thorunn

1.11.06
Um ekkert

Mér liggur svo mikið á hjarta að ég á erfitt með að skrifa nokkuð. Þess vegna hef ég ákveðið að skrifa um ekkert.
Borðaði hakk og spag með kartöflumús, eins og mamma gerði það, í kvöld. Þann mat hef ég ekki borðað síðan á tuttugustu öld.
Er að vinna í kvöld og er ansi hrædd um að vinnufundur sem ég þarf að vera á stangist á við Little Britain. Síðasta miðvikudag missti ég af þættinum vegna þess að ég var að hlusta á rausið í einhverjum ljóðskáldum á Næsta. Æi. Little Britain er eiginlega það eina sem ég horfi á með mikilli gleði.
Í gær leit ég yfir blogg mitt síðustu vikur. Ég sé að ég forðast að skrifa um þjóðfélagsmál og gagnrýna stjórnmálamenn eða aðrar opinberar fígúrur. Það er aumingjaskapur, en þetta kemur til af ástæðu. Ef ég tala gáleysislega um einhvern, þá dúkkar sá hinn sami upp hér á kommentakerfinu og/eða hringir í mig og krefur mig skýringa. Ég er engin manneskja til að standa í svoleiðis.

Well. Kannski ég reyni að fá útrás fyrir reiði mína hér á blogginu seinna í kvöld. Ef vinnan hefur þá ekki af mér alla andagift.
:::
19:58 ::: ThorunnEins og álfur út úr hól og utangarðs í ofanálag

Um helgina fór ég í Kolaportið, eins og alltaf þegar Sjafnar er hjá okkur, og gramsaði þar í bókum. Þær eru margar í Kolaportinu og flestar á spottprís. Mig langaði að kaupa eina, sem ég man ekki hvað heitir, en það var höfundarnafnið sem kætti mig óskaplega: Álfur Utangarðs. Geri ég ráð fyrir að höfundur sá hafi upplifað sig sem jaðarhöfund. Og það ekkert smá.
:::
14:07 ::: Thorunn

31.10.06
La vie, la vie

Margir af mínum æstustu aðdáendum hafa látið í ljósi óánægju sína við mig upp á síðkastið. Þ.e. þeir sem hafa hvorki áhuga á köttum né bókmenntum. Síðustu þrjátíu færslur fjalla um þetta tvennt. Fyrst Þórberg og allt í kringum málþingið, svo Kobba heitinn og síðan bókmenntagetraunir á getraunir ofan.

En nú er betri tíð í vændum. Héðan í frá verður kötturinn Kobbi bara til í hjarta okkar á Hagamelnum og óvinsælu bókmenntagetrauninni er lokið.

Þá er best að tilkynna úrslit.

Bókmenntagetraunin var í tíu hlutum, eins og allar góðar bókmenntagetraunir.

1. Spurt var um Öldu Oddsdóttur Ívarsen og bókina Tímaþjófinn eftir Steinunni Sigurðardóttur. Enginn svaraði rétt (þvílík skömm!).

2. Spurt var um Imbrudaga eftir Hannes Sigfússon. Enginn svaraði rétt, en hin óþekkta (a.m.k. í mínum augum) Helga Jóns var ansi hreint nálægt því.

3. Spurt var um bréf Sólrúnar Jónsdóttur, Sólu, sem birtist með bréfum Þórbergs Þórðarsonar í bókinni Bréf til Sólu. Dr. Silbermann, sem nefndur er Siggi sanasól í tenglunum, hikstaði ekki augnablik og kom auðvitað með rétta svarið.

4. Spurt var um bókina Felix Krull, játningar glæframanns, eftir Thomas Mann, í þýðingu Kristjáns Árnasonar. Skáldið Eiríkur Örn Norðdahl svaraði rétt, um leið og ég hafði sleppt spurningunni í loftið.

5. Spurt var um sveitunga minn Einar Braga og bók hans Af mönnum ertu kominn. Helga Jóns svaraði eftir nokkurt hik, en það var vel af sér vikið.

6. Spurt var um ljóðabók Lindu Vilhjálmsdóttur, Öll fallegu orðin. Svarið stóð ekki í Farfuglinum. En ég hef áreiðanlegar heimildir fyrir því að farfuglinn sá heiti Svala og sé Jónsdóttir.

7. Spurt var um Alveg glymjandi einveru Bohumils Hrabal, í þýðingu Þorgeirs Þorgeirsonar og Olgu Maríu Franzdóttur. Bára vinkona svaraði mér umsvifalaust í tölvupósti, en hún er haldin kommentafælni og fékk því ekki að vera með. Parísardaman svaraði og hafði að vísu bara Þorgeir sem þýðanda og skrifaði föðurnafn hans með tveimur essum (sem er ófyrirgefanlegt), en svarið taldist samt rétt.

8. Spurt var um bók Þorsteins Jens Vilhjálmssonar, Takk, mamma mín. Ekki stóð á svarinu, en aftur var það Parísardaman sem sló í gegn.

9. Spurt var um Furðulegt háttarlag hunds um nótt, eftir Mark Haddon, í þýðingu Kristínar R. Thorlacius, en rétta svarið hafði hún Rúna, sem vill nefna sig Þögla aðdáandann.

10. Spurt var um Íslenzka menningu I eftir Sigurð Nordal og eftir aðra vísbendingu kom HI með rétta svarið, þó að Rafmennið hafi verið aaaansi nálægt því eftir þá fyrstu. Hef ég nokkuð áreiðanlegar heimildir fyrir því að HI standi fyrir nafnið Haukur Ingvarsson, en sá er skáld og Víðsjárstjórnandi.

Parísardaman hefur því sigrað og húrra fyrir henni! Mér skilst að daman heiti réttu nafni Kristín Jónsdóttir. Ef hún sendir mér heimilisfang sitt í tölvupósti (thorunnh@simnet.is), þá fær hún (sennilega í lok næstu viku) senda bókina Stelpan frá Stokkseyri - saga Margrétar Frímannsdóttur - glóðvolga úr prentsmiðju, áritaða með blóði, svita, tárum og ekki síst uppsölu höfundarins. Þess ber að geta að margar bækur eru leiðinlegri en Stokkseyrarstelpan. En ef Parísardaman nennir ekki að lesa hana, þá getur hún gefið hana einhverri æstri vinstrimanneskju í jólagjöf.

Læt ég þá lokið getraunastagli.
:::
21:40 ::: ThorunnBest að ég komi með vísbendingu.

Í sama riti segir höfundurinn þetta:

Ef athuguð eru ættjarðarkvæði Íslendinga, dylst ekki, hversu rík ástin á landinu var á 19. öld. Hún var rómantísk, en hún var heil. Ástin á þjóðinni var ólíkt blandnari. Frón var "enn hin sama undursjón eins og fyrr á landnámstíð", en saga þjóðarinnar var lengst af fremur ógiftusamleg, stundum ófögur, svo að ekki væri talað um, hvað náungarnir í samtíðinni voru margvíslega meingallaðir. Ýmsum miklum ættjarðarvinum var ekki fjarri skapi að taka undir tilbrigði kaupmanns nokkurs í Reykjavík á draumvísu Konráðs Gíslasonar:

Landið er fagurt og frítt,
en fólkið bölvað og skítt.

Höfundur og rit. Ég missi allt álit á ykkur ef þið getið þetta ekki!
:::
20:26 ::: ThorunnTíu

Jæja, klárum þetta.

Sumir erlendir málfræðingar, sem eitthvað hafa nasað af fornum skáldskap, eru þeirrrar trúar, að dróttkveðnar vísur njóti enn fullra vinsælda meðal Íslendinga, og finnst það furðulegt. En í raun réttri munu örfáir menn hér á landi gefa þeim skáldskap gaum af fúsum vilja. Þegar fornsögur eru lesnar, stendur flestum stuggur af vísunum, hlaupa yfir þær, athuga ef til vill þýðingar þeirra, sem í útgáfunum standa, en þykir kostur á sögu, ef hún er vísnalaus. Og leggi þeir á sig að brjóta vísurnar til mergjar, mun þeim einatt þykja lítið til eftirtekjunnar koma. Hinum gömlu skáldum virðist hafa verið einkennileg ástríða að gera allt torskilið og flókið, en það er fjarri smekk nútíðarmanna. Þeir kjósa beinar línur, umsvifaleysi, vilja stefna skemmstu leið að settu marki.
:::
13:17 ::: Thorunn

29.10.06
Kökuskrímslið Kermit

Stundum bráðnar hélan utan af íshjarta pönkarans. Það gerðist þegar Bára vinkona sendi þetta í tölvupósti.

http://youtube.com/watch?v=WpZ8HY0WukU

Jáhá. Ef svo innilegur barnshlátur getur ekki glatt mann, þá hlýtur að vera ansi hart í ári.
:::
23:09 ::: ThorunnNumero 9.

Parísardaman hefur tekið forystuna. Það er nú skemmtilegt. Níundi hluti getraunarinnar hljóðar svo: Hvaða höfundur, hvaða bók?

Kaflar í bókum fá venjulega númer eftir öllum náttúrulegum tölum í talnaröðinni 1, 2, 3, 4, 5, 6, og svo framvegis. En ég hef ákveðið að merkja mína kafla með frumtölunum 2, 3, 5, 7, 11. 13 og áfram, því að ég hef svo gaman af frumtölum.

Ég verð sífellt meyrari með aldrinum. Þess vegna verða getraunirnar sífellt auðveldari. Þetta er nú eiginlega bara spurning um að vera fyrst(ur) til.
:::
22:10 ::: Thorunn

28.10.06
#8

Enginn hefur forystu í óvinsælu bókmenntagetrauninni. Helga, Dr. Silbermann, Eiríkur Örn Norðdahl, Farfuglinn og Parísardaman hafa þó eitt stig hvert. En hér kemur númer átta.

Svo átti svo margt eftir að gerast, mér þótti verst þegar ég kom í heimsókn, og hún var ekki inni hjá sér, hurðin opin, og ég fann hana neðst í stiganum. Hún vissi ekki hvar hún var, og ég bar hana út í bíl, hélt á henni í fanginu einsog barni. Svo vildi hún fara strax heim aftur þegar hún var búin að jafna sig uppá spítala, fara heim, sagði hún. Hún vildi stundum ekki hjálp, mér fannst einsog hún vildi deyja, fljótt, helst strax. En dauðinn kom ekki strax, ekki fyrr en í ágúst, maí, júní, júlí, ágúst. Langur tími.

Sem fyrr, bók og höfundur.
:::
23:25 ::: ThorunnBrjálaðir englar

Úff. Drengirnir sem ég er að gæta eru brjálaðir! Frá því að foreldrar þeirra komu með þá klukkan hálfsex og þar til þeir sofnuðu hlupu þeir viðstöðulaust um húsið og rifu allt og slitu. Borðhaldið var líka ævintýralegt. Ég veit ekki hversu mikið af hænsnunum sem ég bauð upp á fór á sinn stað, en það hefur sennilega ekki verið til að metta nokkurn maga.

Branda átti fótum sínum fjör að launa því að ormarnir sóttu í að hanga í rófunni á henni. Eftir kvöldmat beit hún Hávarð í höfuðið, en bara laust. Þegar hún bítur mig, þá bítur hún fast.

Raunar sofa englarnir núna, en eins og allir vita þá breytast börn umsvifalaust í engla þegar þau sofna. Mikið óskaplega sem þeir eru hvíthærðir og bústnir og fallegir.

Sjafnar er að púsla 1000 bita púsl með mynd af hlébarða. Ég horfi á hann í forundran, vegna þess að ég ræð ekki einusinni við 100 bita. Það held ég að sé meintur skortur á rýmisgreind. Hann veldur því m.a. að ég rata aldrei neitt, á erfitt með að bakka, skynja ekki áttirnar og get ekkert í stærðfræði.

Ég er að garfa í áttunda hluta getraunarinnar, sem er í tíu hlutum, eins og allar góðar getraunir. Áttundi hlutinn verður pís off keik.
:::
22:49 ::: ThorunnKúguð kona

Brynjar bannaði mér að nefna frumburð okkar eftir Þórbergi. Hann sagði að það lyktaði einum of mikið af þráhyggju. Nú langar mig að fá annan kött vegna þess að ég held að Branda sé lónlí og sjálf er ég að drepast úr söknuði eftir Kobba. Ég sagði við Brynjar í kvöld að ég vildi fá lítið fress á heimilið og ég vildi nefna það eftir Þórbergi. En hann bannaði mér það líka.
Ég veit satt að segja ekki hvað ég er að rövla um femínisma á opinberum vettvangi. Ég ræð andskotann ekki neinu á mínu heimili.
:::
02:10 ::: ThorunnDem i kælderen

Ég er voða glöð og montin vegna þess að vinkonu minni hefur nýlega verið hrósað í hástert í dönsku blöðunum. Auðvitað sá ég þetta fyrir, enda hljóta það að vera fávitar sem ekki hrífast af Dem i kælderen.
:::
00:51 ::: Thorunn

27.10.06
Ég get ekki hætt. #7.

Einn morguninn komu slátrarar frá Sláturfélaginu hingað með fullan bíl af blóðugum pappír og blóði drifnum pappakössum, fullar byttur af pappír sem ég aldrei þoldi, þetta ilmaði sætsmeðjulega og ég varð alblóðugur eins og slagtarasvunta. Til varnaðar lagði ég Lof heimskunnar eftir Erasmus frá Rotterdam opið í fyrsta baggann, Don Carlos eftir Friedrich Schiller lét ég með auðmýkt í annan baggann, en fyrir þriðja baggann sló ég upp Ecce Homo eftir Friedrich Nietzsche svo orðið mætti verða að blóði drifnu holdi.

Þetta er þýðing. Það þýðir að ég vil þrennt. Bók, höfund og þýðanda.
:::
23:09 ::: ThorunnDagarnir

Mjá. Ekki tjóir að hafa bara bókmenntagetraunir hér á blogginu. Gáfnafar lesenda minna er nú ekkert til þess að hrópa ferfalt húrra fyrir.
Nei nei. Þetta var bara grín. Sjálf get ég ekki neitt í getraunum. Ég er algjör sauður og fatta aldrei það sem ég á að fatta.

Í fyrrakvöld fór ég á ljóðakvöld Bjarts á Næsta bar. Þar sat ég hjá þessari og þessum og blaðraði tóma steypu. En það var samt ferlega gaman og bæði sessunautarnir og ljóðskáldin firna skemmtileg. Ég græddi tvær ljóðabækur og talaði við nokkur mjööög fræg skáld. Ég er þó svo þroskuð að ég er ekkert að neimdroppa.

Í dag fór ég svo á fund með Víðsjár-liðinu, Hauki Ingvars, Gauta Kristmanns og Auði Aðalsteins. og við ákváðum hver á að taka hvaða bækur. Ég ríð á vaðið 2. nóvember og tala um Guðlausa menn eftir Ingunni Snædal.

Í kvöld fékk ég handritið úr umbroti. Mér sýnist bókin verða a.m.k. 360 síður og mig óar við því að lesa yfir handritið eina ferðina enn. Samt. Þetta er í síðasta skiptið og gvuuuuuð hvað ég verð fegin að sjá á eftir þessu ferlíki í prentun.

Um helgina er Sjafnar hjá okkur. Það er alltaf gaman. Á morgun koma svo tveir litlir frændur okkar frá Vestmannaeyjum og gista vegna þess að pabbi þeirra er að keppa í fitness og mamman vill auðvitað horfa á.
Mamman er nafna mín, við erum systradætur, en litlu strákarnir heita Bergur og Hávarður, þriggja ára og eins árs.
Ég er hálfkvíðin vegna þess að það er svo langt síðan ég hef passað lítil börn, en what the heck, það hlýtur að reddast eins og allt annað.
:::
22:11 ::: ThorunnBókmenntagetraun númer eitthvað

Það eru þau Helga, EÖN og Silfurmaðurinn sem hafa svarað rétt fram að þessu. Verðlaunin eru svakaleg og ég hvet fólk til að gramsa í heilasellunum. Það er þess virði.

komum
til þingvalla sagðirðu
upprifinn einn daginn í vor
skreppum til þingvalla snöggvast

til útlanda ha?
komum saman til köben
til parísar komum til parísar
saman það er svo rómantískt

en við fórum aldrei út
saman hvorki til parísar
þingvalla eða út að borða
við vorum inni

Þetta er brot úr ljóði. Hvað heitir bókin og hver er höfundurinn?
:::
19:46 ::: Thorunn

25.10.06
Ókei, ókei!

Til þess að reyna að slá í gegn, þá reyni ég að þoka þéttheimskum lesendum mínum í átt að svarinu.
Eins og komið hefur fram á athugasemdakerfinu, þá er þetta eftir karlmann sem er tiltölulega nýlátinn. Hann var ansi fjölhæfur skrifari.

Í bókinni sem þetta er úr talar höfundurinn m.a. um að móðir hans hafi staðið á því fastar en fótunum að honum hafi ekki komið dúr á auga næstum allt fyrsta æviárið.

Páll Ásgeir giskar til skiptis á Helga Hóseasson og Málfríði Einarsdóttur í öllum bókmenntagetraunum sem ég stend fyrir. Heldur hann að ég sé með öllu laus við slægð, eða hvað?
:::
17:44 ::: ThorunnÁfram með ...

Endalaust er spurningahöfundur dissaður fyrir að vera bara með tilvitnanir, en ekki eiginlegar spurningar eða vísbendingar. Því segir hann: Þessi spurningakeppni er fyrir fólk sem þykir vænna um texta en einhverja löngu dauða karla og kerlingar. Og hana nú.

Amma Friðbjörg giftist aldrei, en átti þrjú börn sitt með hverjum manninum. Þetta var talið sýna að hún væri létt á bárunni. En það þurfti ekkert lauslæti til þess að verða þrisvar barnshafandi áður en getnaðarvarnir komu til sögunnar. Sumum dygðablóðum tekst þetta enn með pilluna í ráptuðrunni. Ógiftar stúlkur áttu ekki um annað að velja en krossfesta holdið ef þær ætluðu að vera öruggar um að eignast ekki barn í lausaleik. Amma Friðbjörg hafnaði krossinum og vel sé henni fyrir það: annars hefði maður orðið fjarri góðu gamni jarðlífsins.

Bók og höfundur. Og getiði nú, kálfarnir mínir kátu!
:::
14:13 ::: Thorunn

24.10.06
Fjórði hluti

Jæja, life goes on, eins og Corky og fólkið hans voru með á hreinu og hér kemur því fjórði hluti minnar óvinsælu bókmenntagetraunar.
Dr. Silbermann er sá eini sem hefur unnið sér inn stig þó að þrír hlutar séu að baki og því er full ástæða fyrir besservissera að spýta í sellur.

Spurt er um þýdda bók. Ég vil fá nafnið á bókinni og höfundinn. Ekki væri verra að fá nafn þýðandans líka.

Í rauninni er ekkert eins auðvelt og það að stýra lyftu. Menn komast næstum strax upp á lagið, og þar sem ég kom mér sjálfum og einnig, eins og ég þóttist mega marka af mörgu augnatilliti, heldra fólkinu, sem ég flutti ýmist upp eða niður, afar vel fyrir sjónir í hinum snotra búningi mínum og gladdist auk þess yfir hinu nýfengna nafni mínu innra með mér, varð starfið mér til talsverðrar ánægju í fyrstu.
:::
00:13 ::: Thorunn

23.10.06
Við skulum drekka dús

Ekki bregðast bloggvinir fremur en fyrri daginn. Voðalega er mikið af næs fólki til á Næslandi. Bræðurnir Ásgeirsson hafa líka gert Kobba ódauðlegan með erfiljóðum og kann ég þeim bestu þakkir fyrir.

Ég hef verið eins og slytti í allan dag. Aldrei hefði ég getað trúað því að það gæti verið svona sárt að missa gæludýr. Enda hafa gæludýr þessarar fjölskyldu verið heldur óþrifalegur fénaður fram að því að við fengum Kobba. Geðveik kanína sem urraði viðbjóðslega á mig og nagaði rafmagnsleiðslur, fiskar sem drápust á öðrum degi, rottulegir hamstrar sem lifðu allt of lengi. Og Branda blessunin. Hún er nú svona eins og hún er. Alveg ágætur köttur, en við Kobbi vorum sálufélagar.

Já, í dag hef ég legið hálfgrenjandi í rúminu og lesið Sálminn um blómið. Sú bók ætti að vera fáanleg í apótekum með áletruninni: Ef brýtur á þér, taktu þá inn tvo til þrjá kafla á dag, eins lengi og þörf krefur. Hugsanlegar aukaverkanir: Vægt Þórbergsæði, svefnsýki og legusár.

Í dag rifjaðist líka upp fyrir mér hvað það var sem afi Þórbergs söng þegar konan hans dó og hann varð fullur og sálmurinn var sunginn um blómið. Jú, jú. Hann söng Komdu kisa mín!
:::
23:23 ::: ThorunnKobbi er dáinn

Hann fannst fyrir utan Hagamel 28 kvöldið sem hann hvarf en þar hafði verið ekið yfir hann. Greyið hefur þá ekki lent á neitt flakk, heldur bara hætt sér yfir götuna.
Nú hafa jarðneskar leifar Kobba skilað sér á dýraspítalann í Víðidal, þar sem bálför fer fram seinna í dag.

Ég mátti velja hvort ég sækti hræið af Kobba litla og jarðaði það, eða greiddi fyrir brennslu. Ég get ekki hugsað mér að þurfa að sjá hann svo ég féllst á það síðarnefnda.

Úff.
:::
14:14 ::: ThorunnBlessuð íslenskan

Mér er svo þungt fyrir brjósti / að ég bifa mér ekki úr stað... segir í söngtextanum um Normu sem var spurð að því hvort hún legði sér orma til munns.
Ég get tekið undir þetta. Ég er uppfull af vondum tilfinningum vegna kattarins sem hvarf.

Best ég reyni að hugsa um annað.

Seint á föstudagskvöldið hringdi vinur minn, sem var þá á leið á djammið, en hann átti við mig erindi tengt vinnu okkar beggja.
Eins og hefðin býður manni að gera þá sagði ég við hann að skilnaði: "Gakktu hægt um gleðinnar dyr."
Hann svaraði: "Nei, í þessum efnum reisi ég mér iðulega hurðarás um öxl."

Lengi er nú hægt að orna sér við það hvað íslenskan getur verið skemmtileg.
:::
00:08 ::: Thorunn

22.10.06
Ég er svo vond

Kemur nú þriðji hluti brókmenntagetraunarinnar. Spurt er um nafn bréfritara og bók þá er bréfið birtist í. Ath. Þetta er aðeins brot úr bréfinu.

Ég þakka þér innilega fyrir línurnar, þær glöddu mig og ég hef lengi ætlað að vera búin að senda þér orð, en það fyrirfórst af því ég varð veik, fékk 40 stiga hita. Ég get ekki heimsótt þig oftar, ég finn að ég á heima hjá þér, ég er andstæða við allar manneskjur. Þetta er mér skapað af því ég er svo vond, þú hefur sagt mér það, og það er vani minn að trúa því sem mér er sagt.

Þetta er nú Easy as pie.
:::
22:15 ::: ThorunnImbrudagar

Lesendur eiga erfitt með að þekkja tilvitnanirnar. Í tölvupósti fékk ég þá athugasemd að ég væri fantur. Ennfremur var því varpað fram að Stefán Pálsson væri góður maður, þar sem hann leyfði fólki að þokast í áttina að réttu svari með því að gefa vísbendingar. Þetta er áreiðanlega rétt, en svona er lífið.

Svar við öðrum hluta bókmenntagetraunarinnar.

Textinn er eftir Hannes Sigfússon, en þetta er úr bókinni Imbrudagar frá 1951. Þar fjallar Hannes m.a. um sömu atburði og hann segir frá í Strandinu fjórum árum síðar. Þ.e. þegar olíuskipið Clam fórst við Reykjanes í mars 1950. H.S. var þá aðstoðarvitavörður í Reykjanesvita og varð vitni að því þegar 27 menn fórust. Hann komst líka í álnir við að hirða upp líkamsleifar og notaði aurana til þess að fara til útlanda, eins og hann segir frá í Framhaldslífi förumanns (1985).

Þá byrjaði líkin að reka á fjörurnar líkt og rifrildi úr gulnuðum sálmi, blað eftir blað. Við tíndum þau upp en reyndum ekki að hefta þau saman á ný. Orgelið hélt áfram að spila án þess við tækjum undir, en við bárum líkin upp úr fjörunni, það sem var eftir af þeim, og þótti að vísu sárt hvernig máttlausar hendur þeirra slógu taktinn til einskis, ef þær féllu niður af börunum. Dag eftir dag lágu þeir eins og hráviði um fjöruna, afklæddir hverri spjör, og sumir grafnir í sand af blygðun, gulir af olíu, höfuðlausir, en með hendur sem gripu í tómt, hlaðin kynfæri af þungu, eitruðu vatni. En sumir voru klipptir sundur í miðju.
Jæja. Þessi rifrildi úr vígðri bók voru ekki endurprentuð. Þau voru grafin í jörð ásamt höfundum sálmanna. Bein þeirra voru undarlega hvít eftir sjóvolkið, þótti mér. (bls.56).

Það er nú kannski ekkert skrítið að Hannes ræfillinn hafi verið með þetta á heilanum alla ævi. Maður man nú annað eins.

Lítil skemmtisaga til þess að vega upp á móti ógeðinu...já og gremju fólks yfir því að hafa ekki vitað svarið.

Þegar Hannes hafði búið í Noregi árum saman kom hann eitt sinn heim og ætlaði að halda áfram að vera skemmtanaglaður skáldatöffari en gætti ekki að því að bæði skemmtistaðir og drykkir fara reglulega úr tísku, ef þeir hverfa beinlínis ekki í dá gleymskunnar. Hannes skundaði því í Naustið og bað kurteislega um tvöfaldan sénever í spur.

Næsta getraun innan skamms.
:::
15:13 ::: Thorunn

20.10.06
Ég er að tryllast !

Hefur einhver séð augasteininn minn? Innan í eyranu á honum stendur D2 og innan í höfðinu á honum stendur 352206000039120. Því miður hafði hann nagað af sér ólina sem hann er með á myndinni áður en hann villtist á braut.

Kobbi er sniðugur köttur. Hann vildi alltaf vera í námunda við bestu vinkonu sína og kom sér því fyrir í ávaxtakörfunni á eldhúsborðinu þegar ég var að vinna í fartölvunni á sama borði. SNÖKT! Allavega...símanúmerið mitt er 8682786.
:::
22:49 ::: ThorunnTil höfuðs SP

Ég er alveg stúmm yfir því hvað leiðindagetraunir Stefáns Pálssonar fá mikla athygli en skemmtileg bókmenntagetraun mín eiginlega enga. Því reyni ég aftur og slengi hér fram tilvitnun. Spurt er um íslenska bók og (nema hvað) íslenskan höfund.

Þá byrjaði líkin að reka á fjörurnar líkt og rifrildi úr gulnuðum sálmi, blað eftir blað. Við tíndum þau upp en reyndum ekki að hefta þau saman á ný.

Ég er annars í stöðugu sambandi við Kattholt. Hef auglýst á heimasíðunni þeirra og líka í Melabúðinni. Sömuleiðis hafa nágrannar mínir verið ónáðaðir og látnir opna bílskúrana sína. Líka hefur verið ekið um nágrennið á mörgum bílum og tveir jafnfljótir nýttir til leitar í görðum.
Leitin hefur enn engan árangur borið. Ég hygg ekki hafi verið leitað eins mikið að neinum eins og ég hef leitað að Kobba. Geirfinnur og Valgeir Víðisson meðtaldir.
:::
22:32 ::: ThorunnAlda kalda

Ég hef áreiðanlegar heimildir fyrir því að ýmis gáfumenni og spurningakeppnanördar lúslesi síðuna mína kvölds og morgna. Þess vegna er ég alveg krossbit yfir því að enginn skuli koma með rétt svar við bókmenntagetrauninni.

Rétta svarið er: Alda Oddsdóttir Ívarsen á afmæli átjánda október. Fyrir þá fáráða sem ekki vita hver hún er skal því ljóstrað upp að Alda er aðalsöguhetja Tímaþjófsins eftir Steinunni Sigurðardóttur, en sú bók er í þráhyggjusafni pönkarans.

Það eru tvö svör við því hvað var á boðstólum í veislu sem haldin var henni til heiðurs. Nægilegt hefði verið að hafa annað rétt.
Tvær skreyttar rjómatertur voru framreiddar á kennarastofunni í MR, en heima bakaði Alma systir Sachertertu og bruggaði súkkulaði. Á eftir var drukkið koníak.

Tilvitnun í tilefni 18. október, sem nú er að vísu löngu horfinn í safn tímanna.

Erpir íslenskukennari flytur mér afmælisferskeytlu með innrími, sem ég hendi ekki reiður á, utan að hann lét Alda ríma við kalda. Þá brosti lati (Steindór Einarsson latínukennari, innsk. bloggara) sigurbrosi masókistans með munnherkjum. Djöfull kvíði ég því þegar hann kemur heim í uppgjörið. Það er ömurlegt starf að leggja þessa elskhuga sína huggunarríkur á brjóst. (Bls. 19-20)

Alda fylgir mér endalaust. Þessi bók er svo vel stíluð og klikkuð að ég mun aldrei losna við hana úr hausnum.

Annars hvílir sorg yfir kjallaraholunni í dag. Þó að pönkarinn hafi verið duglegur og farið með myndir af MF í Odda og skilað af sér Megasarverkefninu og steikt ýsu sem vakti lukku, þá er hann samt lítill innan í sér. Kobbi greyið hefur ekki skilað sér heim og ég er orðin mjög hrædd um að hann sé dáinn. Hver á núna að kúra í hálsakotinu á mér á morgnana og hver á að æpa á mig að gefa sér ýsu og hver á að taka tryllingsleg æðisköst að hætti ungra katta, yfir bandspotta, skóreimum eða bolta?
Branda tekur ekki þátt í neinu svona, nema kannski ýsubrjálæðinu. Ég hugsa með hryllingi til þess að Kobbi sé núna kaldur og svangur einhversstaðar, kannski lokaður inni í geymslu eða bílskúr þar sem hann deyr úr hungri. Eða rammvilltur í alltöðru hverfi.

Á morgun ætla ég að hringja í Kattholt, en auðvitað bið ég fyrir Kobba í kvöld.
:::
00:17 ::: Thorunn

19.10.06
Kobbi er týndur!!!

Ég er í drasli. Hann hefur ekki komið heim síðan í gærkvöldi og við höfum leitað útum allt. Nú fer ég með augýsingu í Melabúðina.
:::
16:04 ::: Thorunn

18.10.06
Bókmenntagetraun

Hvaða sögupersóna á afmæli átjánda október? Og hvað er á boðstólum í afmælisveislu sem haldin er henni til heiðurs, snemma í sögunni?
:::
21:31 ::: ThorunnRitstuldur

Sjávarútvegsráðherra heimilaði í gær hvalveiðar að nýju í íslenskri lögsögu.
Sagði ráðherra að loks fengju þessar "lúsugu rottur hafdjúpanna" það sem þær ættu skilið.
Hvalur 9 var dubbaður upp í hendingskasti og fylltur blóðþyrstum hvalveiðimönnum, vopnuðum sprengiefni, hvalskutlum og klóróformi. Fylgdu þeir í humátt á eftir hvalaskoðunaskipinu Kátu hnísunni og voru að vonum ekki lengi að komast í feitt.


(Tekið af Baggalúti. Mér finnst þetta svo ógeðslega fyndið að ég stóðst ekki mátið.)
:::
17:54 ::: Thorunn

17.10.06
Til Auju

Þegar bjartsýnin
stingur mig af stundarkorn

dagurinn glutrast
gegnum fingur mér

kvöldið kemur óboðið
án þess að hafi
rofað í blátt

þegar allt sýnist allsendis
ómögulegt

og ekkert viskí
til að hella yfir
hamingjuleysið

þá vill mér til happs
að til er fólk eins og þú

sem málar minninguna rauða
og augu mín aftur blá

(Þetta kvæði eftir Olgu Guðrúnu Árnadóttur er skrifað eftir minni. Síðast las ég það fyrir eitthvað um tuttugu árum og það er alveg viðbúið að ég fari rangt með.)
:::
23:27 ::: Thorunn

15.10.06
Getiði nokkuð sagt mér...

Ég verð að segja eina gamansögu sem Pétur Gunnarsson sagði þegar við vorum að borða kjötsúpu á Hala í hádeginu í dag (í gær). Við vorum að tala um það Þórbergsfríkin hvað okkur hafði oft langað að fara niður að Hala þegar við ókum framhjá áður en Þórbergssetrið var opnað.
Ég sagði frá því að ég hefði oft verið alveg komin að því að stoppa bílinn og labba niðureftir til að skoða, en óttast mjög að einhver af ábúendum kæmi út og æpti á mig: "Hvurn fjandann ert þú að snuðra hér!"
Pétur sagði þá að fyrir allmörgum árum hefði hann verið kominn á fremsta hlunn með að fara niður að Hala, banka upp á og segja: "Fyrirgefiði, getið þið sagt mér hvar Öræfajökull er?"
Þar hafði hann fyrirmynd í Stefáni frá Möðrudal, sem kom víst einhvern tíma ríðandi á hesti inn í Simmasjoppu (og hér lék Pétur Stefán, sem hafði háa og skræka rödd) og sagði: "GETIÐ ÞIÐ SAGT MÉR HVAR HLJÓMSKÁLAGARÐURINN ER?"
Þetta vakti fögnuð við borðið, en er kannski eitthvað "svona einsog HANN sagði það" dæmi.
:::
01:39 ::: Thorunn

14.10.06
Paradise found

Um kvöldmatarleytið kom ég heim af Þórbergsþinginu. Ég er svo hrærð að ég má vart mæla, en verð þó að skrifa nokkur orð.

Frá upphafi til enda var málþingið hreinn unaður. Allir sögðu eitthvað gáfulegt um Þórberg og allir voru kátir, maturinn var góður og rúmin dúnmjúk. Þórbergssýningin beinlínis stórkostleg (bæði stjörnuhiminn með Síríus, baðstofan á Hala og skrifstofa Þórbergs. Meiraðsegja gat ég komið við jakkafötin hans, skrifborðið og ýmislegt fleira. Svo var drukkið duggukonjak.)

Á leiðinni austur töluðum við Halldór og Silja linnulaust og leyndarmálin, skúbbin og kjaftasögurnar gætu fyllt heila bók.
Á leiðinni suður var Soffía Auður komin í stað Silju (sem fór til Egilsstaða í dag) og sagan endurtók sig. Djöfull er þetta skemmtilegt fólk!

Neimdroppið gæti náð nýjum hæðum ef ég væri ekki svona vel upp alin (HAH!) svo ég læt bara nægja að segja að ég hitti LILLU HEGGU!!!! og hún kom til mín eftir erindið mitt og sagði að það hefði verið frábært! Fjúúúh! Og hún er alveg jafn sæt og hún var þegar hún var lítil hjá Sobbeggi afa á Hringbraut 45.
Ekki nóg með það. Guðbjörg Steindórsdóttir, sem allir vita að er dóttir Þórbergs, var þarna líka þó að ég þyrði ekki að nálgast hana. Halldór gerði það hinsvegar og hún sagði honum ýmislegt.

Í stuttu máli sagt, þá finnst mér eins og ég hafi verið í Paradís. Ég þakka bæði Guði og Halahjónunum Fjölni Torfasyni (sem er sonur Torfa Steinþórssonar Þórðarsonar, bróður Þórbergs) og Þorbjörgu (sem mig minnir að sé Arnórsdóttir, en er ekki alveg viss vegna þess að ég er þreytt eftir paradísarferðalagið).

Ég mun lifa lengi á þessu í hinni gerspilltu Reykjavík. Ó, Suðursveit!
:::
23:39 ::: Thorunn

12.10.06
Töskur og blaðamenn

Vandamálið er þetta:

Ég á enga fína tösku sem hentar fyrir eins og hálfs sólarhringsferðalag þar sem bæði er krafist kvöldverðarklæðnaðar og útivistarfatnaðar.
Ég á bara bakpoka sem hentar til dagsferðar og svo tösku sem maður pakkar í fyrir a.m.k. fjögurra sólarhringa dvöl. Þetta er dilemma.

(HUX)

Ég held að ég leysi vandamálið með því að taka bara stóru töskuna. Ég meina, útivistarúlpan, flíspeysan, vettlingarnir, gönguskórnir, dragtin, fartölvan, Suðursveitarbækurnar, myndavélin, snyrtibuddan...maður fer ekki að troða þessu í einhverja Nike-tösku, er það?
Stóra taskan segir hinsvegar: "Sú sem á mig er óforbetranlegt borgarkvendi sem kann ekki að búa sig undir hina hreinlífu Suðursveit". En það verður bara að hafa það.

Það sem Kolla skrifaði í Blaðið í dag eftir samtal okkar í gær var bara ansi fínt. Ég hef nýlega tekið upp á þeim sið að lesa ekki yfir viðtöl sem tekin eru við mig þar sem fólk, sem lúsles viðtöl og vill fá að breyta hinu og þessu vegna þess að það kann ekki að koma frá sér heilum setningum, fer í taugarnar á mér þegar ég sit hinum megin við borðið. Eða fólk sem heldur að það sé að tala við kunningja sinn þegar það er að tala við blaðamann og ætlast alls ekki til þess að allt sem það segir fari í blaðið, já, það fer álíka mikið í taugarnar á mér.
Þess vegna verður maður bara að drullast til þess að reyna að segja eitthvað af viti - þá verður þetta allt í lagi. Og ef maður hefur verið illa sofinn eða er haldinn blaðamannafælni eða maður hreinlega veit ekkert í sinn haus...þá verður bara að hafa það.
:::
23:29 ::: ThorunnWTF?

Þess má geta að þegar ég kveikti á tölvunni eftir síestuna, þá vissi ég engin deili á þessum Orhan Pamuk.
Þannig hefur það líka verið með Nóbelsverðlaunahafa síðustu ára. Nema náttúrlega Pinter og Grass. Mig rámaði líka eitthvað í Szymborsku vegna þess að Geirlaugur hafði þýtt nokkur ljóða hennar, og án þess að vita að sagan væri eftir Jelinek, þá hafði ég séð hina mjög svo pervers mynd, Píanóleikarann.
:::
16:26 ::: Thorunn

10.10.06
Fræga fólkið tekur Pönkarann í rúminu

Ég veit að dyggir lesendur mínir hafa fyrir löngu áttað sig á því að stundum vaki ég mjög lengi frameftir á kvöldin. Það þýðir að ég sef oft mjög lengi frameftir á morgnana.
Raunar vakna ég alltaf rúmlega sjö og framreiði staðgóðan morgunverð handa syni mínum og kem honum af stað í skólann. Ég les blöðin og tek veðrið (é ræt!) en síðan sækir iðulega á mig syfja. Þá bíður Kobbi kviðrista (eins og Brynja Björk kallaði þetta saklausa dýr hér á kommentakerfinu) eftir mér við svefnherbergisdyrnar og vill fá að lúra í hálsakotinu á mér. Ég er dýravinur og auðvitað leyfi ég honum það. Svo sofnum við bæði malandi. Stundum sofum við í klukkutíma, stundum í tvo og allt upp í þrjá þegar ég hef farið mjög seint að sofa.
Í morgun svaf ég óvenju lengi. Áður en ég komst fram úr rúminu höfðu fjórar þjóðþekktar persónur hringt í geimsíma minn. Þetta voru þau Margrét Frímannsdóttir, Helgi Seljan, Ingólfur Júlíusson og Kolbrún Bergþórsdóttir.
Þar sem ég er annáluð blaðurskjóða get ég alveg sagt ykkur hvaða erindi fræga fólkið átti við mig.
MF vildi fá að heimsækja kjallaraholuna og láta mig fá nokkrar athugasemdir við handritið. Var það auðsótt mál.
HS vildi fá mig til að segja sér hvað væri djúsí í bókinni vegna þess að hann verður með MF í viðtali í Silfri Egils á sunnudaginn. Ég tafsaði eitthvað og reyndi að temja mér háttu stjórnmálamanna; að tala án þess að segja nokkuð. Það gekk vel.
IJ vildi segja mér að hann væri að flytja í nágrenni við mig. Mig minnir að hann hafi sagt á Víðimel. Hann bað mig vinsamlegast að koma í kaffi og hnýtti því svo aftanvið að ég mætti alveg hjálpa sér að flytja og kannski líka að raða bókum. Ég fagnaði því að fá Ingólf sem nágranna og sagði honum (eins og satt er) að það skemmtilegasta sem ég geri í lífinu er einmitt að raða bókum.
KB vildi fá mig í viðtal vegna Þórbergsmálþingsins. Hún bað mig að heimsækja sig upp í Hádegismóa í hádeginu á morgun (hver í ósköpunum fann nú upp á þessu nafni; Hádegismóar?) og þá gætum við talað um Þórberg. Ég tók þeirri beiðni ljúfmannlega, enda finnst mér rosalega gaman að tala um Þórberg.

Svo gekk nú dagurinn bara eins og dagar ganga. Við fórum þó í Kringluna og Binni keypti handa mér ferlega flotta skó. Ég er víst ekkert mjög kvenleg vegna þess að almennilega skó hef ég ekki keypt mér árum saman. Það er alltaf verið að tala um skósýki kvenfólks, en mér er bæði ljúft og skylt að greina frá því að síðustu árin hef ég einkum gengið í leðurstígvélum sem ég keypti árið 2000 og leðurskóm með hæl, sem amma gaf mér vegna þess að hún passaði ekki lengur í þá. Ég meina, hversu margar gellur ganga í gömlum skóm af ömmu sinni? Annað hvort er ég mjög framúrstefnulega hipp og kúl, eða þá að ég er bara alls engin gella.

Nú ríður á að klára ýmislegt. Þó vil ég segja frá því hér að ég mun ekki nota athugasemdakerfi Palla klikk (Öðru nafni PÁÁ - ég bjó til viðurnefnið vegna þess að mér fannst það hæfa honum svo vel) fyrr en hann hættir við þessar stærðfræðiþrautir sem maður þarf að leysa áður en hægt er að kommenta. Ég notaði vasareikni en var samt meinaður aðgangur! Hverja ertu að reyna að hæna að þér gamli besservisser? Harald veðurfræðing?

So long.
:::
22:33 ::: ThorunnDaglegt stúss

Hef áorkað heilmiklu í dag. Hitti Möggu Frí og kreisti út úr henni nokkur lokaorð í bókina og reif svo af veggnum hjá henni myndina sem við útgefandinn viljum endilega að verði kápumynd. Svo hitti ég Magnús og fékk hjá honum texta sem eiga að vera í textabókum endurútgáfanna. Pikkaði allt saman upp og talaði ennfremur heillengi við útgefandann um ýmislegt stúss varðandi myndir og annað.

Binni eldaði unaðslegan saltfisk í kvöldmatinn og ég fór södd og sæl frá borðinu. Enda fiskurinn góður og svo höfðum við með honum kartöflur sem mamma og Gunnar tóku upp úr garðinum sínum um daginn. Íslenskt smér og rúgbrauð eru líka ómissandi og auðvitað var nóg af því í dinnernum.
Þetta var ögn hefðbundnari matur en ég eldaði í gærkvöld; Spagettí með reyktum sjóbirtingi, hvítlauk, rauðlauk, ólífuolíu og parmesan. Drengjunum mínum leist ekkert á blikuna á meðan ég var að elda, en svo fannst þeim þessi tilraunamáltíð bara alveg dúndurgóð. Hana bar ég fram með ristuðu brauði og sinnepssósu.

Í morgun hringdi í mig krúttið hún Brynja Björk, fyrrum samstarfskona mín, sem nú vinnur hjá Birtíngi (Séð og heyrt). Hún var að leita upplýsinga hjá mér, sem ég gat ekki veitt henni, en samt sagði hún mér svo djúsí sögu að ég stóð eiginlega á öndinni. Brynja sagði mér að grjóthalda kjafti yfir sögunni og auðvitað geri ég það. Mér skilst að þetta komi allt fram í næsta SogH.

Fyrst að ég er nú farin að tala um eldamennsku og annað slíkt þá verð ég að segja frá því að ég keypti Gestgjafann - klúbbablaðið og varð aldeilis ekki fyrir vonbrigðum. Hef nú þegar augastað á nokkrum uppskriftum sem ég ætla að nýta mér fyrir fermingarveisluna í vor.

Þessi færsla er sérstaklega tileinkuð þeim bloggara sem ég rambaði óvart inná í dag, en sá kvaðst ekki þola þegar fólk væri að blogga um það sem það hefði í kvöldmatinn. Eins og jarðálfurinn Láki, þá hef ég gaman af því að gera öðrum illt og vona innilega að margir hafi orðið ókátir við þessi skrif.
:::
00:48 ::: Thorunn

8.10.06
Sunnudagur

Hér til hliðar sjáið þið Kobba og Bröndu í stofusófanum. Þau eru stundum góðir vinir, en það er ekkert alltaf.
Þess má geta að Kobbi er uppáhaldið mitt, en Branda er uppáhaldið hans Brynjars. Óskar er ekki svo óþroskaður að hann geri upp á milli.

Í dag vorum við litla fjölskyldan viðstödd skírn í heimahúsi. Fjölskyldufaðirinn var skírnarvottur og hefur þessvegna verið kallaður Godfather í dag. Þegar ég vil biðja hann um að gera eitthvað, þá krýp ég á kné, kyssi auðmjúk á honum höndina, segi Godfather og ber fram óskir mínar.

Ég ákvað að taka Stöð tvö og Bíórásina næstu tvo mánuði og horfði á Jón Ársæl tala við Þráin Bertelsson* í kvöld. Það krúttlegasta í þættinum fannst mér þegar Ýrr Bertelsdóttir þýðandi sagði að hún hefði alltaf reynt að sinna bróður sínum eins vel og hún gat þegar hann var lítill. "Mér fannst hann bæði fallegur og góður," sagði hún og mér finnst eitthvað svo spes þegar fólk er ekkert að flækja hlutina eða pakka þeim inn í skrúð.

Mig langar svolítið að láta hanna síðuna upp á nýtt. Þá er ég ekki að meina að ég vilji losna við hana Pálu (kanínan með drullusokkinn á hausnum) heldur langar mig að hafa svigrúm til þess að setja inn greinar, best of blogg, viðtöl, ritdóma, myndabanka og svoleiðis. Það útheimtir kannski að ég þurfi að kaupa mér lén, en ég er alveg reiðubúin til þess.
Getur einhver af þeim sem les síðuna ráðlagt mér með þetta? Og ef einhver lesandi treystir sér til þess að ráðast í verkið, hvað kostar það? Kommentakerfið er galopið og svo hef ég netfangið thorunnh@simnet.is

*Þess má geta að Þráinn skrifaði bók sem heitir Sunnudagur og hún var í uppáhaldi hjá mér þegar ég var í menntaskóla. Bókin fjallar um mann sem drepur konu - eiginlega ekki útaf neinu. Hann á blindan vin sem hann heimsækir á sunnudögum og honum segir hann alla sólarsöguna.

:::
23:23 ::: ThorunnAldrei er góð vísa

You talkin' to me? You talkin' to me? You talkin' to me? Then who the hell else are you talkin' to? You talkin' to me? Well I'm the only one here. Who do you think you're talking to? Oh yeah? Huh? Ok.
:::
03:37 ::: Thorunn

7.10.06
Arbeit macht frei

Ég skilaði handritinu í annan yfirlestur í dag. Hjúkkit maður. En hér ber að greina frá því að um hádegisbilið upplýstist ég af þeirri tilfinningu að sennilega verði bókin bara ansi hreint fín. Hæfileg blanda af persónulegu drama og pólitísku uppgjöri.
Ég er eldri en tvævetur í ævisagnabransanum og veit því að enn eru sennilega tvær vikur eftir þar til bókin fer í prentun. Ég á eftir að redda nokkrum mikilvægum myndum og skrifa myndatexta og svo verður brotið um og ég les yfir í þriðja sinn þegar það er búið, hamast í kápugerðarmanni, skrifa texta aftan á kápu o.s.videre.
Ég veit að Þórdís les síðuna og því upplýsi ég að á morgun og hinn verð ég í Einars Áskels-greininni sem ég er að skrifa fyrir tímaritið Börn og menning, sem hún ritstýrir. Þórdís skrifaði okkur greinarhöfundunum tölvubréf um daginn þar sem hún lofar að bjóða okkur í Einars Áskels-partí þegar tímaritið er komið út. Það þýðir sennilega að maður eigi að taka pabba sinn með sér í partíið. Já, eða einhvern ósýnilegan vin.
Þegar E.Á.-grein er lokið, þá fer ég nú að undirbúa Þórbergsfyrirlesturinn sem ég á að flytja á Hala um næstu helgi. Austur ek ég með Halldóri Guðmundssyni og Silju vinkonu og vona innilega að Halldór sé ekki ökuníðingur.
Inn á milli annarra verkefna tek ég til við að pikka texta fyrir fimmtu Megasarplötuna sem kemur út nú á næstunni (hef þegar pikkað u.þ.b. sjötíu A-4 síður og lét mig hafa það að skamma höfundinn um daginn fyrir að vera svona helvíti langorður alltaf).
Áðan ókum við á Þingvöll og á leiðinni hlustaði ég á feiknaskemmtilegan tveggja tíma langan þátt Freys Eyjólfssonar þar sem hann tók fyrir plötuna Hús datt, en á meðan var Megas í viðtali, sagði frá hverju lagi og spjallaði nett.

Já. Nú er pitsudeigið að hefast í ofninum og á eftir baka ég extraspesíal grænmetispitsu handa okkur Binna (tómatar, sveppir, rauðlaukur, ólífur, parmesan og chili) og eina óspennandi handa Óskari (skinka og sveppir). Þess má geta að klukkan á þessu bloggi er bandsjóðandivitlaus, en samt erum við ansi sein með kvöldmatinn í kvöld.
:::
21:45 ::: ThorunnFermingin

Stebbi stuðari tók svo nærri sér það sem ég skrifaði um fermingar hér á síðunni að hann hefur ekki talað um annað síðustu daga. Hann heldur með Jónasi Kristjánssyni í málinu (Þórunn 0 : Jónas 1) og flestir netverjar halda með þeim tveimur. Ég er farin að halda að netið sé pyttur djöfulsins og hef velt því fyrir mér hvort ég ætti nokkuð að vera að daðra við myrku öflin með því að taka þátt í netsamfélaginu.

Mér er fermingarárið mitt enn í fersku minni. Það hef ég líka rifjað upp með sjálfri mér nú nýverið vegna þess að einkasonur minn fermist 1. apríl á næsta ári og er þegar farinn að ganga til spurninga, eins og það var einhvern tíma orðað.
Ég var svo þægt og yndislegt fermingarbarn að það verður lengi í minnum haft. Ég man ekki hvort ég hef sagt frá því áður, en á Eskifirði voru fermingarbörnin látin leika jólaguðspjallið í desember. Töluvert var lagt í þessa leiksýningu vegna þess að allir bæjarbúar sem lúffum gátu lyft mættu á svæðið. Við vorum svo fá í mínum bekk að allir fengu bitastæð hlutverk. Pílatus og þjónn hans, englar, María, Jósef, vitringar og fjárhirðar. Ég var þó sennilega stoltust (kannski fyrir utan Maríu mey, sem nafna mín Þórunn Sif lék) vegna þess að ég fékk að vera guðspjallamaður. Allir vissu að djobb guðspjallamannsins fékk það ungmenni sem gat best ráðið við að koma frá sér lesnum texta. Athyglissýkin lét snemma á sér kræla og því kunni ég því einkar vel að standa í predikunarstólnum, horfa yfir lýðinn og lesa: "En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Ágústusi keisara um að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina..."
Hormónar og annað drasl myndast inn í börnum á þessum aldri og svo ég segi það nú bara alveg eins og er, þá leystist helgileikurinn upp í einn allsherjar fíflagang.
Þjónn Pílatusar (sem dvelur nú í undirheimum Reykjavíkurborgar) prumpaði þegar hann sagði sínar setningar og Pílatus (sem nú dvelur á frönsku rivíerunni eftir að hafa selt sitt múltímilljarðafyrirtæki) trylltist úr hlátri. Vitringarnir, #1 Nú guðfræðingur og kennari, #2 Húsmóðir og nemi, og #3 Næringarfræðingur og mikið gúrú, gerðu sér lítið fyrir og geðbiluðust einnig úr hlátri. Englakórinn, María og Jósef, smaladrengirnir...allt heila klabbið hló og helgileikurinn varð að einni hlátursroku hormónatrylltra fermingarbarna.
Eskfirðingar voru farnir að örvænta um æsku byggðarlagsins þegar guðspjallastelpan hóf grafalvarleg upp raust sína án þess að láta sér bregða og hélt áfram að lesa guðspjallið.
Mamma hrósaði mér margar vikur á eftir, vegna þess að alltaf voru konur að koma upp að henni í Ellabúð og segja: "Mikið stóð hún Þórunn Hrefna sig vel í helgileiknum! Hún bara bjargaði því sem hægt var að bjarga!"

Já, svona var ég nú gott barn, þó ég hafi nú stundum daðrað við illskuna síðan.

Svo man ég alveg eftir fermingunni. Ég tók fallegu orðin, sem mælt eru yfir fermingarbörnunum, svo mikið inn á mig að ég táraðist. Ég var svo glöð yfir því að komast í samfélag við Jesú.

Ég verð samt að viðurkenna að stundum hef ég verið ansi langt frá frelsaranum í ýmsu stússi og ekki alveg kunnað að nálgast hann á ný, en ég trúi og það er mér mikilvægt. Ég veit að einhvern tíma verðum við "like this".

Að nútímanum. Til þess að vera P.C. þá spurði ég drenginn minn hvort hann vildi fermast og hvort hann vildi þá kannski fermast borgaralega. Hann horfði á mig eins og ég væri að delera og sagði: "Mamma! Ég er kristinn maður!"

Mikið varð nú móðurhjartað innilega glatt á þeirri stundu.
:::
01:24 ::: Thorunn

6.10.06
Auddi Blö

Pönkarinn er ekki við alþýðuskap. Eða hann reynir a.m.k. mikið til þess að slá ekki í gegn hjá öðrum og vera ekki sammála fólki í kringum sig um hvað er sniðugt, hvað er rétt og hvað er rangt.

En mikið djöfull var fyndið þegar Auddi Blö var málaður einsog fífl í Kastljósinu í kvöld.
:::
21:01 ::: Thorunn

5.10.06
One more cup of coffee for the road...

Í nótt dreymdi mig að ég hitti Bob Dylan.

Ég veit ekki hvernig það kom til, en ég var allt í einu orðin bílstjóri hans á stjórnlausu fylleríi, sem mér fannst endilega að ætti sér stað á Eskifirði. Dylan lét eins og hálfviti og hafði meðferðis gamla vínilplötu með sjálfum sér, sem hann var sífellt að missa í götuna eða gleyma einhvers staðar.
Ég átti erindi inn í hús en lét Bob bíða í bílnum þar sem ég hálfskammaðist mín fyrir hann, en fann þó jafnframt til ákafrar löngunar til þess að hringja í Megas og segja honum frá því hvern ég hefði hitt.
Þegar ég kom til baka hafði Dylan fiktað eitthvað í gírstönginni og við það hafði bíllinn runnið og hafnað útí skurði. Þar sat goðið ringlað en fremur kátt, enn með vínilplötuna í hendinni. Við þurftum þá að ferðast fótgangandi og ég var fremur pirruð á vitleysunni, nennti tildæmis ekki að svara þegar Bob fór að spyrja mig út í eskfirsk örnefni og þess háttar.
Þegar við stóðum til móts við Hlíðarskálann varð mér litið á hinn hæfileikaríka fylliraft og sá þá að sennilega var hann ekki eldri en tíu ára.

Haldiði nokkuð að ég sé að fara á límingunum?
:::
16:05 ::: ThorunnKobbi kló

Síðari hluti gæludýraannáls verður að bíða. Bæði er ég á skríííííming deddlæn og svo held ég að Kobbi sé ekki allur þar sem hann er séður.
Fyrir fáeinum dögum vorum við í villtum leik og hann boraði klónni í löngutöng mína. Þetta var ansi djúpt og klóin festist smástund í fingrinum, en ég fyrirgaf Kobba strax vegna þess að þetta var óviljaverk.
Nú ber hinsvegar ekki á öðru en að illt sé hlaupið í sárið.
Kannski er það rétt sem Eric segir í kommentakerfi síðustu færslu. Að kettir séu gæludýr djöfulsins sem bíða færis á að drepa og éta eigendur sína?
:::
13:10 ::: Thorunn

4.10.06
Gæludýraannáll, part one

Ég var aldrei kattakona. Þvert á móti lagði ég alltaf mjög mikið upp úr því að vera hundakona. Það fyrsta sem birtist eftir mig á prenti var lesendabréf í DV þar sem ég brást við þeirri svívirðu þegar hundur hafði verið miskunnarlaust skotinn af lögreglunni fyrir að hafa svarað því nokkuð harkalega þegar einhverjir krakkagemlingar voru að stríða honum. Mig minnir að þrír lögreglumenn hafi haldið honum á meðan sá fjórði skaut.
Ég var sennilega tólf ára og mér blöskraði. Mig minnir að lesendabréfið hafi byrjað á þessum lesendabréfslegu orðum: Nú get ég ekki lengur orða bundist!
Í bréfinu tíundaði ég fréttir af villiköttum sem gengu alls staðar lausir bítandi og klórandi án þess að nokkur skipti sér af þeim, en svo mátti eitt veslings hundsgrey ekki verjast stríðni án þess að fá Víkingasveitina yfir sig!

Já, ég var hundakona. Þegar ég var lítil og bjó hjá afa og ömmu á Hrauni átti ég undrahundinn Pollý, íslenska tík, sem kunni að dansa á afturlöppunum og svara í síma, svo eitthvað sé nefnt af hennar trixum, en hún kunni líka að faðma einmana sveitastelpur og hún bæði hló og grét og lék sér, einsog litla sveitastelpan sem átti hana.
Þegar ég flutti svo til mömmu mátti ég ekki eiga hund. Mamma er haldin þrifnaðaræði og það hefði orðið henni að aldurtila að þurfa ofan á hinn skítinn að berjast við hundahár alla daga. Ég grét það ekki lengi, en einsetti mér að eignast hund um leið og ég yrði stór.
En þegar maður er lítill veit maður ekkert um það hvernig er að vera stór. Lengi þvældist ég á milli leiguíbúða og vann störf sem kröfðust þess að ég væri að heiman níu tíma á dag. Ég ber of mikla virðingu fyrir hundum til þess að láta þá þola slíkt og því frestaði ég því að eignast hund. Og ég frestaði því endalaust.
Kött langaði mig aldrei að eignast. Mér fannst kettir undirförulir og leiðinlegir og ég náði engu sambandi við þá. Inga vinkona hefur alltaf átt ketti og þeir höfðu aldrei gert neitt nema að draga til í peysunum mínum og terrorísera mig með dauðum fuglum og músum þegar ég var í heimsókn.
En fyrir tilviljun gerðist hið ótrúlega. Fyrir tveimur og hálfu ári ættleiddi ég Bröndu, fjögurra ára læðu frá brotnu og alkóhólíseruðu heimili, vegna þess að mér fannst að ég yrði að gera það. Við Branda urðum góðar vinkonur, en misgóðar þó, því hún hefur bersýnilega ekki átt auðvelda æsku og á ýmislegt til, sem ekki telst til góðra kattasiða.
Engu að síður kveikti Branda í mér ást á köttum og ég fékk þá flugu í höfuðið snemma á þessu ári að taka að mér annan kött. Ég sá á netinu auglýsingu um kettling frá Bíldudal sem var einn eftir af systkinum sínum og átti athvarf á dýraspítala í Garðabæ. Við fórum þangað spennt og okkur mætti ofboð mjósleginn svart/hvítur högni sem við tókum með okkur heim. Hann fékk umsvifalaust nafnið Kolbeinn kafteinn, í höfuðið á uppáhalds myndasögupersónu húsmóðurinnar á Hagamel, en þar sem hann þótti of lítill til að bera þetta stóra nafn þá var hann bara kallaður Kobbi.
Ég veit að allir lesendur mínir iða í skinninu og skaka sér á skrifborðsstólunum af spenningi, en það verður ekki fyrr en á morgun sem þið fáið að vita hvernig ég komst að því að kettir hafa persónuleika - og hvernig kattafárið hefur breytt lífi mínu.

Mér er bæði ljúft og skylt að nefna það hér, einkum vegna þess að færslan fjallar um gæludýr, að góð kunningjakona mín af DV, Bergljót Davíðsdóttir, er farin að blogga. Begga hefur alltaf margt að segja um fjölmiðla og fleira gott og hún hefur líka spes gæludýrasíðu sem dýravinir eiga vafalítið eftir að skoða af miklum áhuga.
:::
00:39 ::: Thorunn

3.10.06
Uppnefni og heilaþvottur

Ég hygg að það sé ár síðan ég uppfærði tenglana hér til hliðar. En nú sótti ég í mig veðrið og til þess að skemmta mér ákvað ég að reyna að uppnefna sem flesta af þeim bloggurum sem ég les reglulega. Ég fékk aldrei útrás fyrir uppnefnaþörfina í æsku, þar sem ég var svo þægt barn að mér datt ekki einusinni í hug að stríða skólafélögum mínum. Nema einu sinni. Ég hef sennilega verið níu ára þegar ég fór með eldri stelpu inn í bílskúr heima í Hátúni. Þar setti ég víra og snúrur á höfuðið á henni og sagðist ætla að heilaþvo hana. Ég hef áreiðanlega verið að horfa á einhvern kaldastríðsþátt í sjónvarpinu og lifað mig fullmikið inn í hann. Þó var ég svo óvön því að stríða að þegar stelpan hafði hlaupið skelfingu lostin og grenjandi heim til sín, þá fór ég sjálf heim grenjandi af sektarkennd.
:::
00:00 ::: Thorunn

Eldri Bloggar


Bloggarar

Hinir og þessir

Hitt og þetta

Hér má hlæja

Auja mín elskuleg

Siggi sanasól

Leyndarmál

Silja sæta og tímaritið

Anna Staksteinaskelfir

Eric the Yankee

Palli pönk

Vilmundur Vestan kvað

Snilldur

Eðlukóngurinn

Gísli Már Högnason

Palli klikk

Gvendarbrunnur

Beggi.com

Kobbi kúl

Skoðanasystir í hvarfi

Farfuglinn

Galopin dagbók Sverris

Undursamleg veröld Ingós

Erna bókmenntagúrú

Ljúflingur

Gaddavírsrafmennið

Simmi sjónvarpsmaður

Þórdís

Nanna matargúrú

Stebbi stuðari

Bróðir minn í Kristi

Anna punktur Law

Á�rmann

Bastarðurinn

hits.  

Powered by Blogger